29 Mars 2005 12:00

Skoteldaeftirlit lögreglunnar í Reykjavík var með svipuðu sniði og síðast liðin ár en við það störfuðu tveir starfsmenn lögreglunnar.

Innflutningspappírar voru áritaðir í nóvember og desember.  Áður en sölutímabil hófst var fylgst með lagerum innflutningsaðila og vinnu á þeim. Áframhald var á góðu sambandi við skipafélögin sem létu vita þegar skoteldaflutningar voru að fara af stað.

Flutt voru inn rúmlega 707.000 kg eða rúmlega 700 tonn (brúttó) af skoteldum á árinu 2004. Allt innflutningur sem skylt er að láta lögreglu árita innflutningspappíra fyrir.

Það voru 8 aðilar sem fluttu inn skotelda á árinu 2004, til viðbótar 1 aðili sem flutti einungis inn innibombur/inniknöll, 3 aðilar sem flutti inn skotelda til notkunar við leiksýningar og þess háttar og 2 aðilar sem flutti inn björgunarbúnað. s.s blys, reykmerki og línubyssur.

Áður en tímabil skoteldasölu hófst þurfti að hafa afskipti af tveimur söluaðilum sem seldu mikið magn af skotkökum til tveggja fyrirtækja og afhentu vöruna beint til fyrirtækjanna sem ekki er heimilt samkvæmt 24. gr. skoteldareglugerðar. Báðar þessar afhendingar voru stöðvaðar af okkur með aðstoð lögreglunnar í Kópavogi og aðilum gert að skila vörunni aftur til söluaðila.

Að morgni 28. desember var haldinn fundur með þeim sem fengið höfðu leyfi til að selja skotelda. Mættu allir nema fjórir en þeir voru í framhaldinu boðaðir á lögreglustöðina til að sækja leyfi sitt. Á þessum fundi, sem árlega er haldinn að morgni þess dags sem heimilt er að byrja að selja skotelda, var farið yfir nokkur atriði s.s. aldur þeirra sem á sölustöðum væru að vinna, varúðarmerkingar ættu að vera í lagi og fl. Þá var einnig óskað eftir því að söluaðilar hengdu upp á sölustöðum sínum plagg sem útbúið var á árinu 2003 að frumkvæði Umhverfisstofnunar í samvinnu við lögregluna og slökkviliðið. Á plagginu er áréttað að notkun skotelda er óheimil nema á tímabilinu 28. desember – 06. janúar.

Á svæði lögreglunnar í Reykjavík voru útgefin leyfi fyrir 48 sölustaði á vegum 22 söluaðila en fjórir sölustaðir voru ekki opnaðir.

Reykjavík (Kjalarnes)             41 sölustaður og 21 söluaðili

Mosfellsbær,                          2 sölustaðir en    1 söluaðili

Seltjarnarnes                          1 sölustaður  –   (1 söluaðili)

Sölustaðir voru því                 44     og              22 söluaðilar

Einn söluaðili var bæði í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Þessir söluaðilar voru 5 björgunarsveitir, 9 íþróttafélög, 2 Kiwanisklúbbar,

5 einstaklingar/fyrirtæki og KFUM-K.

Meðan á sölutímabili stóð var haldið uppi eftirliti eins og áður með sölustöðum ásamt Forvarnadeild Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins, SHS.

Leyfi voru gefin út fyrir 14 skoteldasýningum eftir 06. janúar 2004 til og með 06. 01. 2005, 4 sýningar á tímabilinu ágúst til desember, 7 sýningar í desember (3 sýningar á gamlárskvöld), 1 á nýárskvöld og 2 á þrettándanum. Þá var og gefið leyfi fyrir einni sýningu þann 08. janúar s.l. en þar var um að ræða árlega sýningu sem yfirleitt er haldin á laugardegi í kringum þrettándann.

Á nokkrar sýningarnar var farið til að bera saman notað magn af sýningarvöru við magnlista þá sem leggja þarf fram þegar sótt er um leyfi. Veitir þetta eftirlit aðhald með ráðstöfun á sýningarvöru.

Samkvæmt upplýsingum frá slysadeild LSH komu þangað, um og í kringum áramótin, 19 tilfelli þar sem um slys af völdum skotelda var að ræða. Árið á undan voru þetta 21 tilfelli, sem skiptist þannig.

2004 – 2005                 2003 – 2004

Heimatilbúnar sprengjur                                          6                                   4

Skotkökur                                                             6                                   6

Flugeldar                                                               4                                   4

Blys                                                                      1                                   3

Stjörnuljós                                                             0                                   2

Kínverji                                                                  1                                   1

Ekki vitað/Annað                                                    1                                   1

Samtals                                                               19                                 21

Ekki var fyrirliggjandi skipting slysanna eftir lögregluumdæmum en þó talið að flest þeirra væru úr umdæmi lögreglunnar í Reykjavík.

Lögreglan í Reykjavík er með til skoðunar alla meðferð og geymslu skotelda í samráði við forvarnarsvið SHS og Vinnueftirlit ríkisins og hyggst gera strangari kröfur til þeirra sem flytja inn skotelda, með tilliti til geymsluhúsnæðis þeirra og alla meðhöndlun skotelda.

Notkun skotelda er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til og með 06. janúar. Rétt þykir að árétta þetta þar sem talsvert hefur borið á því, að undanförnu, að skoteldar hafa verið notaðir þ.e. eftir þrettándann.

Skoteldar eiga ekki að geymast í híbýlum fólks. Ef einhverjir eiga eftir skotelda frá síðustu áramótum geta þeir óskað eftir því við lögreglu að hún láti eyða þeim.

F.h. lögreglustjórans í Reykjavík

F.h. lögreglustjórans í Reykjavík

Óskar Bjartmarz

Óskar Bjartmarz