9 Janúar 2018 17:16

Þótt áramót og þrettándinn séu að baki er enn verið að kveikja í skoteldum og hafa lögreglu borist kvartanir vegna þessa. Verst er þó að einhverjir gera sér að leik að vinna skemmdir á híbýlum fólks með athæfinu og hafa t.d. póstkassar í umdæminu ekki farið varhluta af því. Skoteldar hafa líka verið settir inn um bréfalúgur, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd, en slíkt getur haft mikla hættu í för með sér. Í því tilviki munaði minnstu að eldur kviknaði í pósti, sem lá á mottu undir lúgunni. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að ræða við börn sín um hætturnar sem af þessu stafar.