31 Desember 2019 10:30

Vakin er athygli á því að sérstök skotsvæði fyrir flugelda verða afmörkuð á Skólavörðuholti, Klambratúni og við Landakot á gamlárskvöld. Á þessum stöðum hefur safnast mikill mannfjöldi ár hvert og með þessu er verið að draga úr hættu á slysum af völdum skotelda. Skotsvæði með traustum skotpöllum voru  afmörkuð með keilum á Skólavörðuholti og Klambratúni  2017 og í fyrra bættist Landakotstún við. Starfsmenn Reykjavíkurborgar munu setja upp borða, keilur og skotpalla og taka saman aftur ásamt því að safna gömlum flugeldum og farga þeim. Gæsluliðar verða á þessum þremur stöðum meðan flestir koma þar saman á tímabilinu frá kl. 22 – 01.

Þá má geta þess að Reykjavíkurborg hefur ákveðið í samstarfi við lögregluna að loka fyrir bílaumferð um Skólavörðuholtið til að tryggja betur öryggi íbúa og gesta á svæðinu. Á gamlárskvöld safnast mikill fjöldi fólks á Skólavörðuholtinu og því verður nærliggjandi götum lokað frá kl. 22.00 til 01.00 með svipuðum hætti og undanfarin ár.  Göturnar sem um ræðir eru Eiríksgata frá Mímisvegi,  Skólavörðustígur, Kárastígur og Bjarnarstígur. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.