5 Júlí 2006 12:00
Einum manni hefur verið sleppt en tveir voru í dag úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 29. ágúst næstkomandi í tengslum við rannsókn á skotárás í Hafnarfirði að morgni 21. júní síðastliðinn, þegar tveimur skotum var hleypt af inn í íbúðarhús þar sem þrír menn voru innandyra. Annar þeirra sem nú hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald er og grunaður um að hafa hent eldsprengju að sama húsnæði tæplega sólarhring síðar.
Tildrög árásanna er talið að megi rekja til ósættis á milli annars þeirra sem nú situr í gæsluvarðhaldi og tveggja manna af þremur sem innandyra voru þegar skotárásin var gerð. Það ósætti náði svo hámarki í skotárás þeirri sem áður er frá sagt.
Í tengslum við rannsókn málsins hefur lögregla farið í húsleitir auk þess sem leitað hefur verið í bifreiðum. Vopn hafa fundist við þær leitir, kylfur, hnúajárn og skotfæri, er haldlögð voru af lögreglu. Vopnsins sem notað var við verknaðinn er þó enn leitað.
Átta einstaklingar, þrjár konur og fimm karlmenn, voru handtekin innan við sólarhring eftir skotárásina, þar af einn í kjölfar þess að hafa hent eldsprengju þeirri sem fyrr er nefnd. Sá hafði þá þegar verið eftirlýstur af lögreglu grunaður um aðild að skotárásinni.
Fimm hinna handteknu var sleppt að skýrslutökum loknum en þrír úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Tveir þeirra sitja enn í gæsluvarðhaldi eins og áður segir til 29. ágúst 2006.
Rannsókn málsins stendur enn yfir.