21 Júní 2006 12:00

Klukkan 07:18 í morgun barst lögreglu tilkynning um skothvelli í Vallarhverfi í Hafnarfirði og að skotgöt sæjust á rúðum eins raðhúss í því hverfi. Er lögregla kom á staðinn var hús þetta mannlaust en tvær rúður í því brotnar og ljóst að tveimur skotum hafði verið skotið inn um þær af stuttu færi með haglabyssu. Virðist sem vopninu hafi verið beint upp í loft íbúðarinnar.

Nokkru síðar náðist samband við íbúa í húsinu er býr þar einn og kom hann á vettvang skömmu síðar. Hann hafði verið í húsinu þegar skotið var á það en farið á brott í beinu framhaldi þess. Hann hefur þegar gefið skýrslu hjá lögreglu. Ekki er talið að neinn hafi orðið fyrir meiðslum vegna atviksins. 

Rannsókn á tildrögum málsins stendur yfir.