3 September 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík var kölluð til vegna ungmenna sem höfðu safnast saman í Skeifunni eftir miðnætti í nótt. Upphafið mátti rekja til þess að ungur maður var að kasta af sér þvagi í hraðbanka. Þegar lögreglan kom á staðinn var þar fyrir maður sem hún þurfti að ræða við vegna líkamsárásar. Sá var ósamvinnuþýður í meira lagi og því var viðkomandi handtekinn.
Bar þá svo við að hópur nærstaddra reyndi að ná manninum úr haldi lögreglunnar sem hörfaði undan fólkinu. Rigndi síðan grjóti og flöskum á lögreglubifreiðina en í kjölfarið var fjölmenn sveit lögreglu- og sérsveitarmanna send á vettvang. Illa gekk að stilla til friðar en á staðnum voru 150-200 ungmenni, langflest á menntaskólaaldri. Beita þurfti kylfum á þá sem mest höfðu sig í frammi og voru tíu handteknir. Þeir verða yfirheyrðir eftir því sem ástand þeirra leyfir en margir höfðu neytt áfengis í óhófi.
Af þessu sést að nóttina var annasöm hjá lögreglunni. Mikill mannfjöldi var líka í miðbænum og þar sömuleiðis bar líka mikið á ölvun. Sjö líkamsárásarmál komu á borð lögreglunnar og þá var tilkynnt um mann sem hafði klifrað upp á húsþak og fallið niður. Sá var fluttur á slysadeild og er talinn vera talsvert slasaður. Í nótt voru jafnframt þrír ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur.