18 Maí 2010 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á rúmlega 250 kannabisplöntur í íbúð í fjölbýlishúsi í Kópavogi í dag. Tildrög málsins voru þau að tilkynnt var um átök nokkurra manna fyrir utan húsið og var bareflum beitt. Lögreglan var fljót á staðinn og handtók sex manns, fimm karla og eina konu, fyrir utan húsið en einn þeirra reyndi árangurslaust að komast undan á hlaupum. Einn karl til viðbótar var handtekinn í fyrrnefndri íbúð en þá komu áðurnefndar kannabisplöntur í leitirnar. Fólkið, sem var í annarlegu ástandi, var flutt á lögreglustöð og sett í fangageymslu. Reyndar voru tveir úr hópnum fyrst færðir á slysadeild til aðhlynningar en þeir voru þó ekki taldir alvarlega slasaðir. Í tengslum við málið tók lögregla í sína vörslu ýmsa muni sem fundust á vettvangi, m.a. exi, hamar og tvær kylfur. Ekki er að fullu ljóst hvers vegna kom til þessara átaka mannanna.