28 Desember 2006 12:00
Veggjakrotarar voru á ferðinni á nokkrum stöðum í Reykjavík í gær en ummerki eftir þá sáust á bæði húsum og bílum. Rúður voru brotnar í tveimur öðrum bílum og stungin voru göt á hjólbarða á þeim þriðja. Þá voru stungin göt á dekk á kerru og skorið á ljósakapla.
Tvær unglingsstúlkur brutu rúðu í úthverfi og á öðrum stað í borginni þurfti að kalla til lögreglu þar sem systkini slógust. Þeirri viðureign lauk með því að systirin var færð til læknis en hún mun hafa meiðst á baki. Bróðir hennar hlaut hins vegar ekki skaða af eftir því sem best er vitað.