21 Janúar 2007 12:00

Nokkuð var um slys á börnum og unglingum um helgina og mátti rekja mörg óhöpp til íþróttaiðkunar, ekki síst hjá skíðafólki en í Bláfjöllum var nokkuð um byltur. Vitað var um tvær unglingsstúlkur sem duttu þar harkalega og voru báðar fluttar á slysadeild. Með sama hætti lauk íþróttaiðkun hjá þremur öðrum krökkum, tveimur stúlkum og einum pilti, sem ýmist voru að æfa eða keppa í boltaíþróttum í dag og kvöld. Fleiri slys á krökkum voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en í flestum tilvikum fór betur en á horfðist.

Fullorðna fólkinu fataðist líka flugið um helgina en tveimur körlum og einni konu var komið undir læknishendur eftir óhöpp í Bláfjöllum. Fáeinir duttu í hálkunni á höfuðborgarsvæðinu og þá slasaðist ungur maður á hendi þegar hann var að störfum við höfnina í Kópavogi.