11 September 2009 12:00

Karl á sjötugsaldri meiddist í baki þegar vinnupallur hrundi á hann í Árbænum í gærmorgun. Maðurinn var fluttur á slysadeild. Skömmu síðar var ekið á konu á sjötugsaldri í vesturbæ Reykjavíkur. Henni var sömuleiðis komið undir læknishendur en konan slasaðist á fæti. Um miðjan dag lenti piltur í vinnuslysi í Síðumúla. Sá fékk skiptilykil í  höfuðið og rotaðist. Pilturinn var fluttur á slysadeild. Um svipað leyti datt unglingsstúlka af hjóli í Sigtúni og var hún færð á slysadeild til aðhlynningar. Og skömmu fyrir miðnætti var piltur um tvítugt fluttur á sjúkrahús eftir árekstur tveggja bíla á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Pilturinn, sem ók öðrum bílnum, var þó ekki talinn alvarlega slasaður.