22 Desember 2006 12:00
Nokkur slys voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær. Í útjaðri umdæmisins datt kona á sjötugsaldri og sneri sig illa, jafnvel var talið að hún hefði brotnað. Kona á svipuðum aldri datt í stiga á veitingahúsi í miðborginni og bar sig sömuleiðis illa. Þær voru báðar fluttar á slysadeild. Þriðja konan, allmiklu yngri, rotaðist þegar hún hljóp á svokallaða vörutrillu. Konan mun hafa náð að jafna sig fljótlega eftir óhappið.
Þá voru tveir skipverjar á Þór HF-4 fluttir á slysadeild í gærkvöld. Brotsjór kom á skipið fyrr um daginn og við það slösuðust tveir áhafnarmeðlima, annar tvítugur en hinn hálffertugur. Sá yngri meiddist á hendi en sá eldri á höfði en gert var að sárum þeirra um borð eins og kostur var. Skipið kom svo til hafnar í Reykjavík í gærkvöld og þá voru skipverjarnir fluttir á slysadeild eins og fyrr segir.