20 Mars 2007 12:00
Töluvert var um slys á fólki í gær þar sem bæði ungir og aldnir komu við sögu. Í hádeginu datt fullorðin kona í Breiðholti og nokkur síðar missti fótanna jafnaldra hennar í austurborginni. Konurnar, sem eru báðar á níræðisaldri, voru fluttar á slysadeild. Ófarir þeirra má rekja til hálkunnar en fólk var líka að slasa sig innandyra. Önnur kona á níræðisaldri datt í Kringlunni og í Austurveri féll við karlmaður á tíræðisaldri og skarst á höfði. Þau voru bæði flutt undir læknishendur.
Í Fossvogi var 5 ára strákur á skíðum en svo óheppilega vildi til að hann rann á tré og fékk stóra kúlu á ennið. Stráksi var með skíðahjálm og hann bjargaði miklu. Í Bláfjöllum var nokkuð um skólafólk og því miður áttu ekki allir góðan dag. Sjö ára stúlka fékk slæma byltu en óttast var að hún hefði ökklabrotnað. Annar piltur datt á bakið og kvartaði undan verkjum. Þau voru bæði flutt á slysadeild. Það sama átti við um 14 ára stúlku sem datt illa í Kóngsgili en hún var með áverka á hægra fæti eftir skíðaferðina.
Þá voru tvö vinnuslys tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Karlmaður á sextugsaldri slasaðist við vinnu sína í Hafnarfirði í gærmorgun en hann var fjarlægja fjaðrir úr sanddreifara. Til þess voru notaðir tveir slaghamrar en við verkið skaust flís úr öðrum þeirra og hafnaði í manninum. Eftir hádegi féll karlmaður á þrítugsaldri niður nokkra metra og lenti á bakinu. Maðurinn var að vinna við að losa steypumót í Kópavogi þegar óhappið varð. Ekki er vitað frekar um meiðsli hans.