28 Júlí 2006 12:00

Allnokkrir voru fluttir á slysadeild eftir ýmis óhöpp í Reykjavík í gær. Í Sundahöfn klemmdist maður á milli lyftara og vöruhillu en meiðsli hans voru talin minniháttar. Í miðborginni féll maður af annarri hæð húss og skrámaðist nokkuð. Tildrög slyssins eru ekki alveg ljós en þó er vitað að maðurinn var ölvaður.

Flestir sem leituðu til slysadeildar voru þó þangað komnir vegna umferðaróhappa. Af þeirri ástæðu er rétt að minna á mikilvægi þess að nota alltaf bílbelti. Í einu óhappanna í gær slasaðist farþegi. Talið er víst að sá hafi ekki notað bílbelti en ljóst þykir að meiðsli hans hefðu verið minni ef beltið hefði verið spennt.