23 Ágúst 2002 12:00
Slysalaus dagur í umferðinni.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hafði umtalsverðan viðbúnað fimmtudaginn 22 ágúst undir merkjunum „slysalaus dagur í umferðinni“. Markmið dagsins var að vekja ökumenn til umhugsunar um þeirra þátt í því hversu örugg umferðin er fyrir vegfarendur.
Ekki tókst ætlunarverkið fyllilega því ekið var á barn á Hringbraut við Landspítalann um kl 19:00. Auk þess sem 14 önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu.
Það hlýtur að vera bæði vonbrigði og áhyggjuefni að ekki takist að hafa einn slysalausan dag í umferðinni og það þótt 70 lögreglumenn hafi verið vel sýnilegir á flestum gatnamótum borgarinnar og þeir haft afskipti af yfir 1500 ökumönnum. Jafnframt hlýtur það að brýna ökumenn til að gera betur og láta sitt af mörkum í baráttunni fyrir öruggari umferð.
Flest afskipti lögreglumanna af ökumönnum voru vegna þess að ljósabúnaði ökutækja var ábótavant eða viðkomandi ökumaður var að tala í síma án þess að nota handfrjálsan búnað en það varðar sektum frá 1. nóvember nk. Þá voru 30 ökumenn stöðvaðir þar sem þeir notuðu ekki bílbelti. Þeim var gefin kostur að þiggja ferð í sérstökum veltibíl frá Sjóvá- Almennum tryggingum sem sýnir virkni öryggisbelta. Tveir ökumanna vildu frekar greiða 5000.- sekt fyrir að nota ekki belti en 28 vildu fremur þiggja reynsluferðina í veltibílnum.
Auk þessa var fylgst með akstri þunguflutningabíla í umferðinni og voru það lögreglumenn frá umferðardeild Ríkislögreglustjóra sem önnuðust þann þátt verkefnisins með aðstoð Vegagerðarinnar.