12 Febrúar 2009 12:00

Mikið er um að snjóbrettum sé stolið þessa dagana. Að undanförnu hafa lögreglu borist margar slíkar tilkynningar og ekkert lát virðist vera á. Tilkynningarnar hafa nánast undantekningarlaust komið frá þeim sem hafa farið á snjóbretti í Bláfjöll.

Þar hafa óprúttnir aðilar verið á ferð en þeir virðast nota tækifærið á meðan snjóbrettafólkið hvílir lúin bein og borðar nestið sitt. Mörg snjóbretti hafa horfið með þessum hætti undanfarið og því er full ástæða til að vera enn betur á varðbergi en áður. Iðkendur snjóbrettaíþróttarinnar eru einkum börn og unglingar og vonbrigði þeirra þegar snjóbrettum er stolið, eru skiljanlega mjög mikil. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að brýna fyrir börnum sínum mikilvægi þess að passa vel upp á hlutina sína. Hinir sömu eru jafnframt beðnir um að láta lögreglu vita ef vart verður við illa fengin snjóbretti.