8 Apríl 2021 15:13

Snjóflóð féll ofan við skíðaskála KR í Skálafelli á öðrum tímanum í dag, en tilkynning um málið barst lögreglu kl. 13.34. Tveir voru þar á ferð og lenti annar þeirra í flóðinu en hinn ekki. Fljótlega náðist þó samband við þann sem var fastur í flóðinu og kvaðst sá vera óslasaður. Viðbragðsaðilar voru þá þegar lagðir af stað á vettvang og komu að manninum um tvöleytið, en þá var hann laus úr flóðinu. Hann var óslasaður, eins og fyrr segir, og sama átt við um samferðamann hans.

Lögreglan minnir fólk á að fara varlega þegar farið er til fjalla og að hafa meðferðis öryggisbúnað eins og snjóflóðaýlur.