22 Maí 2007 12:00

Þau eru mörg skrítin atvikin sem geta komið upp í umferðinni. Aðfaranótt sunnudags var lögreglan kölluð að gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar en þar var kyrrstæð bifreið til trafala. Nokkrir vegfarendur voru á vettvangi og höfðu þeir árangurslaust reynt að vekja ökumanninn sem var í fastasvefni inni í bílnum. Lögreglunni gekk litlu betur að vekja manninn en bíllinn hans var bæði læstur og í gangi. Um síðir vaknaði maðurinn þó af sínum væra blundi og gerði sig þá líklegan til að aka af stað en til þess kom þó ekki. Hann fékkst loksins til að opna bílstjórahurðina og var þá handtekinn og færður á lögreglustöð. Illa gekk að yfirheyra manninn sem átti mjög erfitt með að halda sér vakandi en hann var annaðhvort undir áhrifum lyfja eða vímuefna. Maðurinn, sem er tæplega þrítugur og hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, náði þó að skýra frá því að hann hefði sofnaði þegar hann beið á rauðu ljósi. Það verður að teljast mikil mildi að maðurinn skyldi ekki sofna þegar bíllinn var á ferð því þá hefði trúlega farið mjög illa.