26 Október 2012 12:00

Fyrr í vikunni var tilkynnt um ölvaðan mann á reiðhjóli í borginni og hann sagður skapa mikla hættu í umferðinni. Lögreglan brást skjótt við og sá manninn strax og komið var á vettvang. Hann studdist við reiðhjól úti á miðri götu og var alveg hreyfingarlaus. Maðurinn virtist líka vera heyrnarlaus því hann meðtók engin fyrirmæli um að forða sér af götunni. Svo reyndist þó ekki vera því þegar komið var upp að manninum sást að hann var steinsofandi. Kappinn, sem er kominn yfir miðjan aldur, var því vakinn og var honum gert að finna sér annan og heppilegri svefnstað. Maðurinn var furðu hress þegar hann hafði náð áttum en ekki er vitað hversu lengi hann svaf úti á götu. Ekki þykir ólíklegt að maðurinn hafi fengið sér einhverja brjóstbirtu áður en hann fékk sér þennan eftirminnilega blund. Hins vegar er mjög ósennilegt að hann hafi farið um langan veg á reiðhjólinu, en ástand þess gaf til kynna að það væri svo gott sem ónýtt. Fátt var um svör þegar maðurinn var beðinn um að útskýra þetta ferðalag sitt, en séð var til þess að hann færi beint heim til sín til frekari hvíldar. Svona öryggisins vegna.