5 Apríl 2024 13:49

Starfsfólk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu tekur sér ýmislegt fyrir hendur utan vinnunnar og hefur stundum hefur verið sagt frá því hér á síðunni.  Hér er bætt við stuttri frásögn um rannsóknarlögreglumanninn Jökul Gíslason, en hann hefur m.a. getið sér gott orð fyrir ritstörf. Fyrir nokkrum árum sendi hann frá sér bókina Iceland in World War II, en það hefur leitt til þess að Jökull er nú fulltrúi The Commonwealth War Graves Commission, CWGC, hér á landi. Um er að ræða nefnd sem heldur utan um grafreiti breskra hermanna frá stríðsárunum, en hlutverk Jökuls verður að standa að sögugöngu í Fossvogskirkjugarði tvisvar á ári.

Í Morgunblaðinu í gær var frekari umfjöllun um þetta nýja hlutverk Jökuls og er meðfylgjandi mynd fengin þaðan að láni, en hana tók Árni Sæberg. Í blaðinu kom fram að 199 Bretar hvíla í Fossvogskirkjugarði og því er um mikla og áhugaverða sögu að ræða.