31 Desember 2012 12:00

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á MDMA-kristalla, amfetamín og á annað hundrað grömm af marijúana við húsleitir í Kópavogi í morgun. Húsleit var framkvæmd á þremur stöðum en einnig var leitað að fíkniefnum í einni bifreið. Auk fíkniefnanna tók lögreglan kylfu, sem fannst á einum staðnum, í sína vörslu. Fimm voru handteknir á vettvangi en hinir sömu hafa áður komið við sögu hjá lögreglu vegna sölu fíkniefna. Við húsleitirnar naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra auk fíkniefnaleitarhundar frá tollinum.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.