21 Júlí 2017 20:26
Tveir sölumenn voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í fyrradag, en um er að ræða sömu menn og lögreglan varaði við í byrjun vikunnar vegna grunsemda um fjársvik. Sölumennirnir, sem eru erlendir ríkisborgarar, seldu fatnað á förnum vegi, en flíkurnar reyndust ekki vera í þeim gæðaflokki sem fullyrt var. Við húsleit á dvalarstað mannanna, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, var lagt hald á nokkra tugi jakka. Þar var einnig að finna fjármuni, en lögreglan skilaði peningum til eins viðskiptavina þessara óprúttnu sölumanna, en sá hafði keypt af þeim nokkra jakka í góðri trú. Aðferðir þessara sölumanna eru vel þekktar, en starfsbræður þeirra hafa sömuleiðis komið við sögu hjá lögregluliðum í öðrum löndum.