2 Júlí 2019 10:16

​Meðlimir Lögreglukórsins brugðu sér út fyrir landasteinana á dögunum og tóku þátt í lögreglukóramóti í Stokkhólmi í Svíþjóð, en tilefni mótsins var aldarafmæli lögreglukórsins í sænsku höfuðborginni. Lögreglukórar frá fleiri Norðurlöndum tóku einnig þátt og úr varð hin besta skemmtun. Góður rómur var gerður að söng íslensku lögreglumannanna, en þeir æfðu vel fyrir ferðina og buðu upp á skemmtilega dagskrá. Auk þess að taka þátt í mótinu notaði Lögreglukórinn tækifærið og hélt eigin tónleika þar ytra og heppnuðust þeir mjög vel. Lögreglukórinn okkar á sér langa og merka sögu og er ekki nema 15 árum yngri en sá sænski. Hann er samt síungur, en sú breyting hefur orðið að bæði karlar og konur eru nú í Lögreglukórnum og þykir mörgum söngur kórsins vera enn betri en áður! Stjórnandi Lögreglukórsins er Matthías V. Baldursson, en hann hefur stýrt kórnum frá árinu 2017. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr söngferðalaginu.