19 Nóvember 2019 17:37

Svokallað Spice, efni sem telst til nýmyndaðra kannabínóíða, fannst nýverið í rafrettum hjá unglingum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er mikið áhyggjuefni og því vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekja athygli á málinu og hvetja forráðamenn barna og unglinga til að vera á varðbergi. Efnið er nánast lyktarlaust, en á meðal skammtímaáhrifa þess eru mikil gleði og ánægja. Aukinn hjartsláttur, hár blóðþrýstingur, ofskynjanir, ofsóknaræði, kvíðaköst og árásargirni eru hins vegar á meðal alvarlega aukaverkana af notkun efnisins. Í haust fjallaði Vísir um Spice og greindi frá notkun þess á meðal fanga á Litla-Hrauni, en talið er að efnið hafi verið nokkuð lengi að berast hingað. Full ástæða er samt til að hafa áhyggjur af þróun mála, en notkun efnisins er mikið vandamál víða annars staðar, t.d. á Bretlandi.

Það var hegðun unglinganna sem leiddi til afskipta af þeim í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og var lagt hald á rafrettur. Veipvökinn úr þeim var rannsakaður á rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reyndist hann innhalda Spice, auk nikótíns. Málið er unnið í samráði við barnaverndaryfirvöld.