2 Febrúar 2012 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn að karlmanni og hvítri sendibifreið (Renault Kangoo) í tengslum við rannsókn hennar á sprengjunni sem fannst neðst á Hverfisgötu í Reykjavík á þriðjudagsmorgun. Maðurinn var klæddur í víðar, bláar gallabuxur (dökkar) og var með lyklakippu hangandi í buxunum. Hann var í dökkri úlpu og mögulega í hettupeysu innan undir. Maðurinn er þéttvaxinn og var þunglamalegur í hreyfingum. Óvíst er með aldur hans en líklega er maðurinn á miðjum aldri. Hann er talinn vera meðalmaður á hæð.
Rannsókn málsins er áfram í fullum gangi enda lítur lögreglan málið mjög alvarlegum augum. Lögreglu bárust fleiri ábendingar í gær eftir að fjölmiðlar birtu myndir af manninum og bílnum en þær voru teknar úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni. Nú er unnið úr þessum ábendingum en lögreglan áréttar að enn er óskað eftir upplýsingum um fólk eða ökutæki á svæðinu þar sem sprengjan fannst á tímabilinu 6.30-7 á þriðjudagsmorgun. Þeim má koma á framfæri í síma 444-1000 en upplýsingar má einnig senda í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is Sömuleiðis er hægt að koma nafnlausum ábendingum á framfæri í síma 800-5005.