29 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú innbrot í hús í austurborginni. Þar var farið inn í gærdag og munir hafðir á brott. Þjófurinn var sérlega ófyrirleitinn og stal m.a. úr sparibaukum barnanna. Þessi óprúttni aðili tók líka nokkur þúsund krónur í peningum sem ungur heimilismaður hafði safnað með tombólu. Ef þessi þjófur hefur snefil af samvisku ætti sá hinn sami að skila a.m.k. því sem hann stal frá börnunum.

Í gær var einnig tilkynnt um innbrot í nýbyggingu. Þar hafði verkfærum verið stolið og er líklegt að það hafi átt sér stað um síðustu helgi. Þá kom upp mál þar sem gaskútum var stolið en það er þriðja tilfellið á fáeinum dögum.