8 Febrúar 2011 12:00

Stefnuljósanotkun í hringtorgum á höfuðborgarsvæðinu er verulega ábótavant, líkt og kom fram nýverið í tveimur könnunum Umferðarstofu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur þessu að sjálfsögðu líka gaum en í febrúar leggur hún einmitt sérstaka áherslu á eftirlit með notkun stefnuljósa. Af því tilefni var lögreglan við eftirlit með ökutækjum sem fóru um Grandatorg í vesturbæ Reykjavíkur frá kl. 13-15 í dag en umrætt hringtorg er steinsnar frá Sorpu og Olís. Á fyrrgreindum tíma stöðvaði lögreglan um 80 ökumenn sem gáfu ekki stefnuljós. Af því má ráða að mikið vantar upp á að þetta mikilvæga öryggis- og upplýsingatæki sé notað með fullnægjandi hætti.

Þess má geta að einn af þessum 80 ökumönnum reyndist jafnframt sviptur ökuleyfi og reyndi í þokkabót að ljúga til nafns. Allirnokkrir voru ekki í bílbelti, töluðu í síma án handfrjálss búnaðar og/eða voru ekki með ökuskírteini meðferðis.

Athygli er vakin á því að á sama tíma á morgun, miðvikudaginn 9. febrúar, verður lögreglan við eftirlit með stefnuljósanotkun á Vesturlandsvegi við hringtorgið sem er sunnan verslunarkjarnans á Korputorgi.