4 Mars 2011 12:00

Notkun stefnuljósa hefur verið könnuð af Umferðarstofu í tvígang við tvö hringtorg í Reykjavík. Um er að ræða hringtorg við Ánanaust og á Vesturlandsvegi, nærri Korputorgi. Á milli þessara kannana hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgst með stefnuljósanotkun við sömu hringtorg og hefur fjöldi ökumanna verið stöðvaður og fengið sekt.

Talsverð aukning varð á notkun stefnuljósa í hringtorginu á Vesturlandsvegi á milli kannana, eða úr 37% í 48%, en við Ánanaust var niðurstaðan óbreytt. Í báðum könnunum þar gáfu 67% ökumanna stefnuljós þegar þeir óku út úr torginu. Mikill munur var á notkuninni eftir akstursleið og áberandi var að þeir sem óku ekki framhjá gatnamótum sáu ekki ástæðu til að gefa öðrum til kynna hvert þeir ætluðu.

Hringtorgið við Ánanaust er svokallað Grandatorg, steinsnar frá Olís og Sorpu í vesturbænum en hringtorgið á Vesturlandsvegi er á milli Blikastaðavegar og Lambhagavegar, sunnan verslunarkjarnans á Korputorgi.

Ökumenn eru hvattir til að nota stefnuljósin og mun lögreglan fylgjast með sem áður og gera athugasemdir ef út af er brugðið.