20 Janúar 2006 12:00
Stefnumörkun lögreglustjórans í Hafnarfirði og afbrotatölfræði hefur nú verið gefin út í fjórða sinn en hún kom fyrst út í ársbyrjun 2003. Frá þeim tíma er lögreglan fyrst setti sér stefnu og markmið hefur hegningarlagabrotum fækkað í umdæminu um 55% en sérstök áhersla hefur verið lögð á að fækka brotum eins og innbrotum, þjófnuðum og eignaspjöllum. Hegningarlagabrotum frá árinu 2002 til 2004 fækkaði um 29% í umdæmi lögreglustjórans í Hafnarfirði á meðan fækkunin nam 15% á landsvísu.
Helstu niðurstöður úr afbrotatölfræði lögreglustjórans í Hafnarfirði eru eftirfarandi:
Innbrotum fækkaði um 31% milli áranna 2004 og 2005. Innbrotum í umdæminu hefur þá fækkað um 40% frá árinu 2002 til 2005.
Þjófnuðum fækkaði um 13% frá árinu 2004 og hefur þá fækkað um 46% frá árinu 2002 til 2005.
Eignaspjöllum fjölgaði lítillega frá árinu 2004, eða um 6%. Þeim hafði hins vegar fækkað um 33% milli áranna 2003 og 2004 og hefur, frá árinu 2002 til 2005, fækkað um 35%.
Hegningarlagabrotum í heild fækkaði um 37% frá árinu 2004 til 2005. Þeim hefur fækkað um 55% frá árinu 2002 til 2005.
Umferðaróhöppum fjölgaði um 3% frá árinu 2004 og hefur þá fjölgað um 13% frá árinu 2002 til 2005. Á sama tíma hefur umferðarþungi í umdæminu hins vegar aukist um 20%.
Umferðarslysum fækkaði um 32% frá árinu 2004 og hefur þá fækkað um 52% frá árinu 2002 til 2005. Ekkert banaslys varð í umdæminu á árinu 2005.
Skráðum fíkniefnabrotum fjölgaði um 26% frá árinu 2004 og hefur þá fjölgað um 102% frá árinu 2002 til 2005, úr 126 brotum í 254.
Skýrsluna má sjá í heild sinni hér.