30 Janúar 2007 12:00

Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring, flestir  voru stöðvaðir á Sæbraut og Fífuhvammsvegi. Tveir þessara ökumanna óku á ofsahraða. Annar, fertugur karlmaður, var tekinn í Garðabæ í gærkvöld en bíll hans mældist á 146 km hraða á Hafnarfjarðarvegi áður en ökuferð hans lauk utan vegar. Maðurinn er grunaður um ölvunarakstur en einnig fundust ætluð fíkniefni í bíl hans. Nítján ára piltur var svo tekinn í Ártúnsbrekku í nótt en bíll hans mældist á 130 km hraða. Pilturinn gaf þá skýringu á akstrinum að hann hefði stigið óvart á bensíngjöfina þegar sími hans féll á milli sætanna. Við það bar pilturinn sig eftir símanum og leit þá af hraðamælinum. Hvort sem það er satt eða ekki eru það röng viðbrögð í aðstæðum sem þessum. Báðir mennirnir hafa áður gerst sekir um umferðarlagabrot.

Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ekið var á 19 ára pilt í miðborginni síðdegis en ökumaðurinn fór af vettvangi. Hann var handtekinn skömmu síðar ásamt farþega úr bílnum en í fórum þess síðarnefnda fundust ætluð fíkniefni. Síðla kvölds var aftanákeyrsla á Reykjanesbraut í Garðabæ og voru tveir fluttir á slysadeild. Báðir bílarnir skemmdust mikið og voru óökufærir.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur.  Annar þeirra var stöðvaður í Garðabæ, eins og fyrr er getið, en hinn var tekinn í miðborginni í nótt. Sá er á karlmaður á þrítugsaldri en akstur hans var stöðvaður á Hverfisgötu.