17 Desember 2012 12:00

Mikið er um stöðubrot á höfuðborgarsvæðinu en um helgina hafði lögreglan afskipti af 325 ökutækjum vegna þessa. Eins og stundum áður var ástandið í þessum efnum ekki gott í Laugardalnum. Þar voru haldnir tónleikar á laugardag en hluti gestanna hirti ekki um að leggja löglega. Ekki er hægt að kenna um skorti á bílastæðum og má t.d. nefna að bílastæði við Laugardalsvöll voru nánast ónotuð á meðan tónleikarnir fóru fram. Kom það nokkuð á óvart enda er örstutt að ganga þaðan og í Laugardalshöll. Veðrið var líka ágætt um helgina og því hæpið að nota það sem afsökun.

Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en nú er 5000 kr. sekt vegna stöðubrots en gjaldið rennur í Bílastæðasjóð. Sé hins vegar lagt í stæði, sem eru sérmerkt fötluðum, þarf viðkomandi að greiða enn meira, eða 10000 kr.

Kunnugleg sjón í Laugardalnum.

Skortur á bílastæðum?