17 Ágúst 2016 17:58
Ekkert lát er á stöðubrotum á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglan hefur ítrekað afskipti af ökutækjum sem lagt er ólöglega í umdæminu og hafa margir ökumenn fengið sekt vegna þessa það sem af er vikunni. Brot sem þessi eiga sér t.d. oft stað við íþróttavelli í umdæminu, en í gærkvöld var allnokkrum bílum lagt ólöglega þegar knattspyrnuleikur fór fram í Breiðholtinu. Ástandið var svo miklu mun verra í Grafarvogi í fyrrakvöld þegar knattspyrnuleikur var þar á dagskrá, en hátt í 70 ökumenn fengu þá sekt fyrir að leggja ólöglega. Einn þeirra sem kvörtuðu við lögreglu undan bílunum í Grafarvogi vildi meina að sumir íþróttaáhugamenn væru hreinlega latir og nenntu ekki að ganga smáspöl til að komast á völlinn!
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en sekt vegna stöðubrots í Reykjavík er 10000 kr. og 5000 kr. í öðrum sveitarfélögum í umdæminu. Þeir sem leggja í stæði sérmerktum fötluðum fá 20000 kr. sekt í Reykjavík hafi þeir ekki heimild til slíks, en 10000 kr. sekt er fyrir sama brot í öðrum sveitarfélögum í umdæminu.