6 Desember 2011 12:00
Mikið er um stöðubrot í Reykjavík en um helgina hafði lögreglan afskipti af þrjú hundruð og þrjátíu ökutækjum vegna þessa, aðallega við ýmsa samkomustaði. Þannig var bílum t.d. lagt ólöglega við Laugardalshöll og Hörpu en á báðum þessum stöðum eru fjölmörg bílastæði. Á síðarnefnda staðnum er bílakjallari en í honum rúmast nokkur hundruð bílar og kannski rétt að vekja sérstaka athygli á því! Þá ber sömuleiðis á því að fullfrískir einstaklingar nýti sér stæði sem eru sérmerkt fötluðum.
Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en nú er 5000 kr. sekt vegna stöðubrots en gjaldið rennur í Bílastæðasjóð. Sé hins vegar lagt í stæði, sem eru sérmerkt fötluðum, þarf viðkomandi að greiða enn meira, eða 10000 kr.