22 Desember 2014 09:25

Lögreglan hafði afskipti af hundrað og sextíu ökutækjum á höfuðborgarsvæðinu um helgina, en þeim var öllum lagt ólöglega. Sem fyrr hvetur lögreglan ökumenn til að leggja löglega, m.a. til að þeir komist hjá útgjöldum en sekt vegna stöðubrots er 5000 kr.

Þá voru rúmlega tuttugu ökumenn stöðvaðir í umdæminu um helgina en ljósabúnaði ökutækja þeirra var áfátt. Ýmist vantaði ljós að framan eða aftan en ökumönnunum var góðfúslega bent á að skipta um perur, öryggi eða annað það sem bilað var. Lögreglan ítrekar að ökumenn hugi sérstaklega að ljósabúnaðinum. Hann þarf alltaf að vera í lagi og ekki síst í skammdeginu.