4 Júní 2010 12:00

Þann 1. júní tók gildi reglugerðarbreyting sem gerir lögreglu kleift að leggja gjald á ökutæki sem lagt er ólöglega í  sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, en áður var slíkt gjald einungis lagt á í Reykjavík. Þetta gerir lögreglu hægara um vik að hafa eftirlit með lagningum ökutækja og gera ráðstafanir þar sem þess er þörf. Lögreglan vill af þessu tilefni sérstaklega hvetja ökumenn til að fylgja reglum um lagningu ökutækja ekki síður en öðrum reglum sem í umferðinni gilda.    

Það var samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sem auglýsti ofangreint, þ.e. um álagningu og innheimtu gjalds vegna stöðvunarbrota, með svohljóðandi hætti: Samkvæmt heimild í 108. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, hefur verið ákveðið að í Garðabæ, Sveitarfélaginu Álftanesi, Kópavogsbæ, Seltjarnarnes­kaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað og Mosfellsbæ fari álagning og innheimta gjalds vegna stöðvunarbrota fram á vegum embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ákvörðun þessi tekur gildi frá 1. júní 2010 að telja.