25 September 2008 12:00

Töluvert er um stöðvunarbrot í miðborginni og þar eiga ekki síst í hlut ökumenn flutningabíla sem stundum virða ekki umferðarlög en í þeim segir m.a. að lagning eða stöðvun ökutækis á gangstétt sé óheimil. Lögreglu berast margar tilkynningar af þessu tagi og þá einkum frá gangandi vegfarendum sem eiga erfitt með að komast leiðar sinnar. Þeir sem sinna göngueftirliti lögreglunnar hafa tekið á þessum málum en betur má ef duga skal. Iðulega bera ökumenn, sem afskipti eru höfð af vegna þessa, við kunnáttuleysi á umferðarlögum. Hinum sömu, í þessu tilfelli ökumenn flutningabíla en ökutæki þeirra rúmast illa í almennum bílastæðum, er þá gjarnan bent á merkingar sem að þessu lúta en þær er t.d. að finna á Laugavegi en þar er vöruafgreiðsla heimil frá 8-12 alla daga. Engu að síður kjósa margir að keyra út vörur til fyrirtækja á Laugavegi á öðrum tíma og virða þar með ekki reglur sem gilda um vöruafgreiðslu á svæðinu.

Meðfylgjandi eru tvær myndir sem voru teknar á og við Laugaveg eftir hádegi á virkum degi sem sýna glöggt vandann sem við er að etja.