20 Ágúst 2012 12:00

Þegar leið á Menningarnótt varð ástand gesta í miðborginni ansi misjafnt. Það átti t.d. við um karl um fertugt en sá var laminn með glasi á skemmtistað. Maðurinn var blóðugur eftir árásina og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Sá slasaði komst hins vegar ekki undir læknishendur því á leiðinni stökk hann út úr sjúkrabílnum. Þetta átti sér stað á fjölförnum gatnamótum en þrátt fyrir leit fannst maðurinn ekki aftur. Klukkutíma eftir þetta var óskað eftir aðstoð lögreglu á skemmtistað í miðborginni en þá hafði fyrrnefndur maður snúið þangað aftur. Enn á ný var honum komið í sjúkrabíl og í þetta skiptið tókst að koma manninum á leiðarenda þar sem hægt var að gera að sárum hans.