20 Maí 2015 14:17
Á nýju ári hefur verið unnið að verkefni sem snýr að bættu verklagi þegar kemur að meðferð mála sem snúa að ofbeldi á heimilum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Vegna þessa erum einkar stolt af þeim árangri sem náðist á föstudaginn síðasta þegar undirrituð var samstarfsyfirlýsing um átak gegn heimilisofbeldi með bæjarstjórum Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar, en Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, ritaði undir yfirlýsinguna fyrir okkar hönd. Reykjavíkurborg og Mosfellsbær hafa þegar ritað undir svipaða yfirlýsingu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur með þessu náð að festa í sessi verklag sem tryggir markvissari viðbrögð og úrræði gegn ofbeldi á heimilum. Markmiðið með verkefninu er að tryggja öryggi borgarana og koma í veg fyrir ítrekuð brot. Við viljum senda skýr skilaboð um að lögreglan, í samvinnu við sveitarfélög, mun ekki líða ofbeldi á heimilum og beita öllum sínum kröftum til að berjast gegn því.
Með verklaginu er þjónusta við þolendur heimilisofbeldis bætt til muna, málin eru rannsökuð betur og upplýsingar um úrræði og eftirfylgni aukin. Þá fá gerendur aðstoð í formi ráðgjafar og boð um meðferð. Sérstaklega er hugað að börnum og öðrum í viðkvæmri stöðu sem búa við heimlisofbeldi. Þannig vinna lögregla og sveitarfélög saman sem ein heild að bættum hag þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi.
Að vinna gegn ofbeldi á heimilum er verkefni okkar allra – stöndum saman gegn ofbeldi.