17 Mars 2006 12:00

Lögreglan í Hafnarfirði og lögreglan í Kópavogi fóru í gær í sex húsleitir á höfuðborgarsvæðinu, í fjórar íbúðir og tvö iðnaðarhúsnæði, vegna gruns um stórfellt fíkniefnamisferli. Voru leitir þessar framkvæmdar að fengnum úrskurði dómara í fimm tilvika en í einu tilviki heimilaði húsráðandi leit. 

Í tengslum við rannsókn málsins voru handteknir 12 einstaklingar á þrítugs- og fertugsaldri. Sjö þeirra var sleppt að yfirheyrslum loknum en fimm einstaklingar úrskurðaðir í gæsluvarðhald til mánudagsins 20. mars næstkomandi að kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði.

Í aðgerðunum haldlagði lögreglan ríflega fjögur kílógrömm af kannabisefnum og um 440 grömm af meintu amfetamíni.

Mál þetta hefur verið unnið sem samvinnuverkefni lögreglunnar í Hafnarfirði og lögreglunnar í Kópavogi, en að leitunum kom einnig fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík, sérsveit ríkislögreglustjórans og tollgæslan. Þá veitti tæknideild lögreglunnar í Reykjavík liðsinni sitt.