30 Apríl 2008 12:00

Stórtjón varð í tveimur sinubrunum við Hvaleyrarvatn, ofan Hafnarfjarðar, í vikunni. Aðfaranótt mánudags var kveikt í norðan við vatnið og rúmlega sólarhring síðar voru brennuvargir á ferð sunnan við Hvaleyrarvatn. Málin eru að mestu upplýst en sex piltar á aldrinum 17-20 ára voru handteknir vegna rannsóknarinnar. Aðild fimm þeirra liggur fyrir og hafa þeir játað sök en alls voru tíu piltar yfirheyrðir vegna þessara sinubruna.

Í apríl hafa lögreglumenn af svæðisstöðinni í Hafnarfirði farið í níu útköll vegna sinubruna. Oft er um að kenna fikti barna með eldspýtur en í nýjustu sinubrununum við Hvaleyrarvatn var ekki slíku fyrir að fara. Þar áttu engir óvitar hlut að máli. Þess má jafnframt geta að fyrr í mánuðinum kviknaði í stolnum bíl og hesthúsi á þessum sömu slóðum en þau mál eru óupplýst.

Tjónið við Hvaleyrarvatn er gríðarlegt en þar hafði fólk lagt mikið á sig við ræktun. Skemmdirnar sjást glögglega á meðfylgjandi myndum en sú efri var tekin af Landhelgisgæslunni. Svörtu flekkirnir sýna svæðin sem urðu eldi að bráð. Til hægri er svæðið sem brann aðfaranótt þriðjudags en vinstra megin má sjá hvar brennuvargar voru á ferð aðfaranótt mánudags. Neðri myndina tók lögreglumaður frá svæðisstöðinni í Hafnarfirði en honum mætti ófögur sjón á brunavettvangi.