15 Febrúar 2008 12:00
Annþór Kristján Karlsson, sem strauk úr fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík í morgun, var handtekinn í íbúðarhúsi í Mosfellsbæ síðdegis. Karl í sama húsi var sömuleiðis handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Víðtæk leit hafði þá staðið yfir en að henni stóðu lögregluliðin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og tollgæslu. Tveir aðilar, karl og kona, voru handteknir fyrr í dag og yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins. Karlinn var handtekinn á höfuðborgarsvæðinu en konan á Suðurnesjum. Þau eru bæði laus úr haldi lögreglu.