24 Júní 2013 12:00

Laust fyrir miðnætti þann 23. júní veitti lögreglan eftirtekt númerslausu léttu bifhjóli sem ekið var eftir gangstétt á Krókhálsi. Á hjólinu voru ökumaður og farþegi. Lögreglumenn hugðust ræða við ökumann hjólsins, en hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum og hélt áfram akstri. Farþegi á hjólinu losaði  sig við tösku sem reyndist innihalda fartölvu, síma o.fl. og ökumaður hélt akstrinum áfram.

Nærstaddar lögreglubifreiðar voru kallaðar til  þar sem fullsýnt þótti að ökumaðurinn myndi ekki stöðva aksturinn og ítrekað var reynt að stöðva akstur hjólsins m.a. með því að leggja lögreglubifreiðunum þannig að erfitt yrði að komast framhjá þeim, en það dugði ekki til. Hjólinu var að lokum ekið utan í ljósastaur og við það féllu ökumaður og farþegi af því. Í ljós kom að þarna voru á ferð tvær stúlkur.  Þær létu ófriðlega og veittust að lögreglumönnunum og neituðu að segja á sér deili, en síðar kom í ljós að þær voru fæddar 1999.

Stúlkurnar sluppu ómeiddar, en voru til öryggis fluttar til skoðunar á slysadeild þangað sem foreldar þeirra sóttu þær.