14 Júní 2013 12:00
Það var heldur stutt gamanið hjá unga ökumanninum sem lögreglan stöðvaði á höfuðborgarsvæðinu á dögunum. Sá var í sinni allra fyrstu ökuferð, en viðkomandi hafði öðlast ökuréttindi nokkrum mínútum áður en lögreglan stóð hann að hraðakstri. Bíll ökumannsins mældist á tæplega 120 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 60. Fátt var um svör þegar spurt var um aksturslagið, en vonandi lærir ungi ökumaðurinn sína lexíu og kemur aftur í umferðina sem betri ökumaður. Hann fær nú tíma til að hugsa ráð sitt, en bæði svipting og sekt liggur við hraðakstri af þessu tagi.