7 Apríl 2020 10:40

Skilaboð morgunsins eru einföld: Halda áfram – halda áfarm.   Við erum á réttri leið í því að vinna á þessum Covid19 faraldri og þurfum að halda út allann tímann.   Framundan er Páskahelgin. Pössum upp á samkomubannið, fylgjum leiðbeiningunum núna því það styttir þann tíma sem við þurfum að vera í þessu ástandi og það bjargar mannslífum.   Hversu oft hefur þú getað átt þátt í því að bjarga mannslífi?   Hjálpumst að, við erum að gera vel, við sjáum árangur og við getum þetta og erum að gera vel.

Töluvert er um að lögreglu hafi borist tilkynningar um meint brot á reglum um sóttkví og samkomubanni í vegna Covid19 faraldursins í liðinni viku og ljóst er að almenningi er í mun að farið sé að tilmælum sóttvarna- og landlækna um málið.   Þá hefur lögreglan farið í eftirlitsferðir í stofnanir og fyrirtæki þar sem almenningur sækir þjónustu og leiðbeint um hvernig unnt sé að fylgja þessum reglum og er ánægjulegt að sjá hversu samhent fólk er og samhuga um að gera sitt besta í að stöðva útbreiðslu faraldursins.   Ekki hefur komið til kæra vegna brota á reglum ennþá.

Hraðakstrar í liðinni viku eru skráðir 14 talsins og langt síðan svo lág tala hefur sést við embættið. Hún helst í hendur við fjölda ökutækja á ferð.   Einn þessara ökumanna mældist á 140 km/klst hraða á Suðurlandsvegi við Kotströnd þar sem leyfður ökuhraði er 90 km/klst. Ökumaður þeirrar bifreiðar með nýlegt próf og radarvara en hvorugt virðist hafa gert honum gagn þetta sinnið. 2 ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og 2 eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sínum undir áhrifum áfengis.

Þrjú slys, önnur en umferðarslys voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Karlmaður féll úr um þriggja metra hæð ofan af þaki á sveitabæ í uppsveitum Árnessýslu þann 5. apríl. Var einn á ferð og hringdi sjálfur eftir aðstoð.   Björgunarsveit og nágranni fengin strax á vettvang til aðstoðar ásamt sjúkraflutningsmönnum og maðurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar. Kaldur og verkjaður en ekki er vitað nánar um meiðsl hans.     Sama dag féll rúmlega sjötugur maður í Hveragerði utandyra og er talinn handleggsbrotinn. Hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi.     Þann 4. apríl féll maður af baki hests sem hann var með í þjálfun í reiðhöll í Rangárþingi ytra. Hann sömuleiðis fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi.

Fimm umferðarslys voru tilkynnt lögreglu í vikunni.   Á Skeiðavegi var bifreið ekið út af vegi þann 3. apríl.  Ökumaður hennar grunaður um ölvun við akstur og akstur sviptur ökurétti.   Aðfaranótt 4. apríl valt bifreið á Þingvallavegi.   Ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og var fluttur ásamt tveimur farþegum á sjúkrahús.   Einn úr hópnum átti að vera heima í sóttkví og olli það því að viðbragðsaðilar, bæði lögreglu- og sjúkraflutningamenn, þurftu að vera í úrvinnslukví þar til niðurstaða úr rannsókn sýna frá viðkomandi lá fyrir.

Eldur kom upp í vinnubúðum við Hnappavelli seinni part s.l. sunnudag.   Um er að ræða 26 íbúðagáma sem raðað er saman og mynda þannig vinnubúðirnar.   Nokkur fjöldi gáma brann og tjón er mikið. Slökkvistarf lauk fyrir miðnætti á sunnudag og eru eldsupptök, sem eru óljós, til rannsóknar hjá lögreglu.

Gríðarlegur fjöldi verkefna er skráður hjá viðbragðsaðilum vegna óveðurs sem gekk yfir landið um helgina. Stutta útgáfan er að í allmörgum tilfellum hefði verið skynsamlegt að skoða tilefni og þörf fyrir ferðalög áður en haldið var af stað enda appelsínugular viðvaranir í gildi vegna veðurs á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim viðbragðsaðilum og sjálfboðaliðum sem að verkefnum komu í óveðrinu fyrir þeirra óeigingjarna framlag.