18 Maí 2020 16:01

Í liðinni viku voru 3 ökumenn stöðvaðir grunaðir um að vera undir áhrifum ávana- og eða fíkniefna við akstur bifreiða sinna. Einn þeirra er jafnframt grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis en maður þessi reyndi að aka fram hjá umferðarpósti lögreglu á Austurvegi á Selfossi aðfaranótt 17. maí s.l. Allir ökumenn sem fóru þar um á þessum tíma voru látnir blása í öndunarmæli.    Þrír aðrir eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis í umdæminu í liðinni viku.

43 voru kærðir fyrir að aka of hratt. Einn þeirra mældist á 140 km/klst hraða á 90 km vegi og hans bíður nú 150 þúsund króna sekt fyrir brotið. Hann var á ferð um Rangárvallasýslu en um helmingur þeirra sem kærðir voru voru á ferð þar og í Vestur Skaftafellssýslu.

2 ökumenn voru kærðir fyrir að flytja börn í bíl sínum án viðeigandi öryggisbúnaðar. Þá var einn ökumaður kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar.

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar til vegna bruna í sumarhúsi í Úthlíð s.l. laugardag. Íbúar í næsta bústað gerðu viðvart um eldinn og var hann slökktur af nærstöddum með slökkvitæki. Virðist hafa kviknað út frá gömlu rafmagnsljósi.

Fyrr þennan sama dag hafði verið útkall þar sem eldur kom upp í ruslagámi við Dalbraut. Gámurinn alelda þegar komið var á staðinn en þegar slökkvistarfi lauk mátti sjá leifar af einnota grilli meðal þess sem enn var óbrunnið.

Þann 12. maí voru höfð afskipti af unglingum að kveikja „varðeld“ við Vallaskóla.   Þeim gert að slökkva eldinn og í framhaldinu rætt við foreldra þeirra ásamt því að barnavernd var gert viðvart um afskiptin.

Sinueldur logaði skammt frá Laugalandi í Holtum þann 17. maí. Slökkvilið kallað á vettvang og eldurinn slökktur. Nóttina áður hafði slökkvilið í Vík verið kallað út vegna gróðurelds skammt frá Stóru Heiði. Vegna þessa er rétt að minna á að sinubrenna er bönnuð og nú eru mófuglar flestir búnir að verpa og því hætta á að ungviðið brenni ef kveikt er í..