28 Febrúar 2022 10:36
Veður hefur spilað stóra rullu í störfum viðbragðsaðila á Suðurlandi þessa vikuna. Rauð viðvörun var í gildi liðinn mánudag vegna óveðurs sem þá gekk yfir landið, margir lentu í vandræðum á fjallvegum og fjöldahjálparstöð var opnuð í Grunnskóla Þorlákshafnar fyrir fólk sem flutt var þangað úr bifreiðum sem festust í veginum um Þrengsli og á þjóðvegi 1 um Hellisheiði. Foktjón varð víða og umtalsvert tjón m.a. þegar íþróttahús Hamars í Hveragerði fauk, rúður í gróðurhúsi í Biskupstungum brotnuðu í stórum stíl og þak fauk í heilu lagi af íbúðarhúsi á sveitabæ í Rangárþingi ytra.
Í gærkvöldi og í nótt voru viðbragðsaðilar aftur kallaðir til aðstoðar vegna bifreiða sem fastar voru á Hellisheiði og í Þrengslum. Þegar þetta er skrifað er vegurinn ennþá lokaður og unnið að því að losa bifreiðar sem tefja mokstur. Um svipað leiti var bóndi í Öræfum fengin til að fara og aðstoða vegfaranda sem hafði orðið fyrir því að bifreið hans fauk út fyrir veg og festist til móts við Sandfell. Á leið sinni fann bóndinn aðra bifreið utan vegar og fóru björgunarsveitarmenn til aðstoðar þeim sem voru fastir í þeirri bifreið.
Nokkuð er um að bifreiðar séu skildar eftir við vegi þegar ófærð hefur hamlað. Venja er að byrja á að hafa samband við eigendur bifreiðanna og biðja þá um að hlutast til um að ökutækin verði flutt í burtu. Sé því ekki sinnt er hinsvegar gripið til þess ráðs að láta flytja bifreiðina af vettvangi á kostnað eiganda.
Tvö slys á gangandi vegfarendum voru tilkynnt í liðinni viku til lögreglunnar á Suðurlandi, annað á Höfn en hitt á Selfossi. Í báðum tilfellum datt viðkomandi í hálku. Grunur um beinbrot í a.m.k. öðru tilfellinu. 11 umferðarslys voru tilkynnt til lögreglunnar og í þremur þeirra um að ræða slys á fólki. Þann 21. febrúar varð árekstur tveggja jeppabifreiða á Biskupstungnabraut við Kerið. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar alvarlega slasaður og fluttu sjúkraflutningamenn hann með aðstoð björgunarsveita um Suðurstrandaveg á sjúkrahús í Reykjavík en aftakaveður gekk yfir landið á sama tíma og ófært yfir heiði og ekki veður til flugs. Ökumaður og farþegar í hinni bifreiðinni sluppu með minni meiðsli en þó brákuð og marin. Þá slasaðist ökumaður jeppabifreiðar þegar bifreiðin fauk út af Gaulverjabæjarvegi þann 22. febrúar. Fluttur á sjúkrahús en meiðsl ekki alvarleg. Þann 27. febrúar var flutningabifreið ekið aftan á jeppling á þjóðvegi 1 um Skeiðarársand. Ökumaður jepplingsins kenndi til eymsa eftir slysið og var fluttur á heilsugæslu til frekari skoðunar. Báðar bifreiðar óökuhæfar eftir áreksturinn.
8 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. 6 þeirra í Árnessýslu en 2 í Rangárvallasýslu. Þá var einn ökumaður kærður fyrir að aka undir áhrifum áfengis og annar fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.