10 Apríl 2014 12:00

Öllum má vera ljóst að hrað- og svigakstur í þéttri umferð skapar hættu og því er mjög mikilvægt að fækka slíkum brotum. Umferðareftirlit lögreglu er einmitt liður í því, en þessar vikurnar fylgist Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega með hrað- og svigakstri í þéttri umferð og sektar þá ökumenn sem brjóta af sér. Samhliða er auðvitað fylgst með að aðrar umferðarreglur séu líka virtar, en við umferðareftirlitið er notast við bæði merktar og ómerktar lögreglubifreiðar. Þess má geta að í Umferðarsáttmálanum, sem fjallar um samskipti allra vegfarenda og var gefinn út síðasta haust, segir m.a. Ég ek hvorki of hratt né stunda svigakstur enda skapar það hættu, óþægindi og óöryggi fyrir aðra. Vonandi geta allir ökumenn tileinkað sér þetta enda allra hagur að auka umferðaröryggi.

Þennan mánuðinn fylgist Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu líka sérstaklega með því að ökumenn noti þá reinar sem ökutækjum þeirra eru ætlaðar og ekki aðrar. Hér er verið að vísa til þess, sem sést nær daglega í umferðinni, þegar ökumenn notfæra sér sérreinar strætisvagna til að komast leiðar sinnar. Sektarfjárhæð við slíku er kr. 5000 (eigi notuð sú rein sem ökutæki er ætluð). Lögreglan hvetur því ökumenn til að virða líka þessar greinar umferðarlaganna sem og aðrar. Ekki síst svo að þeir sjálfir komist hjá útgjöldum en allnokkrum ökumönnum hefur þegar verið gert að greiða áðurnefnda sekt.

Lögreglan bendir vegfarendum vinsamlegast á að öll berum við ábyrgð í umferð, bæði á okkur sjálfum og öðrum og því mikilvægt að sýna aðgæslu og tillitssemi í hvívetna, alltaf.