25 September 2008 12:00

Fólk hér á landi fær stundum tilboð í tölvupósti. Jafnan er þá reynt að lokka fólk til þátttöku í einhverju sem á að skila því góðum ávinningi. Ávinningurinn verður þó sjaldnast viðtakandans, en þess meiri hjá sendandanum, því tilgangurinn er gjarnan sá einn að svíkja fé út úr ginnkeyptu fólki. Nýlega bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar um enn eina tilraunina.

Ungri stúlku, sem sótt hefur um að fara sem au pair erlendis, barst vænlegt tilboð. Hún fékk tölvupóst frá fjölskyldu í Bretlandi, sem var að leita sér að au pair. Allt leit þetta vel út, en sendandinn bauð einstaklega há laun miðað við hvað er í gangi í þessum geira. Stúlkan varð því strax mjög efins, en talaði þó við fólkið. Daginn eftir fékk hún tölvupóst um að hún ætti að hafa samband við tiltekna ferðaskrifstofu er átti að sjá um að fá vegabréfsáritun fyrir hana, atvinnuleyfi, læknaskýrslu og tryggingu. Stúlkan fékk uppgefið netfang hjá þessari ferðaskrifstofu, en í ljós kom að netfangið reyndist vera gmail.com er þótti enn skrítnara. Stúlkan hafði þó tölvupóstsamband við ferðaskrifstofuna. Til baka fékk hún svar um að greiða 1.300 pund til höfuðstöðvanna, sem væru í Senegal.

Þegar stúlkan hafði aftur samband við fjölskylduna og sagðist ætla bara að sjá um að afla gagnanna sjálf þar sem þetta væri allt of dýrt fékk hún það svar að þessi tiltekna ferðaskrifstofa væri það besta fyrir hana, en fyrst svona væri komið myndi fjölskyldan ætla að greiða helminginn af upphæðinni ef stúlkan flýtti sér bara að borga. Hún hafnaði því og kom þannig í veg fyrir að ætlunarverk svindlaranna tækist – að þessu sinni að minnsta kosti.