17 September 2020 08:39

Nú er enn ein hrina svikapósta komin af stað. Við höfum fengið fjölmargar ábendingar, fyrirspurnir og símtöl vegna þessa. Þó nokkur fjöldi hefur látið glepjast og tapað fjármunum fyrir vikið. Í þessari hrinu senda svikararnir út tölvupósta sem líta út fyrir að vera komnir frá Póstinum, nota lógóið þeirra, kennitölu og allt sem til þarf. Jafnframt er tilkynnt að greiða þurfi 1500 kr. í staðfestingargjald vegna meintrar pakkasendingar og þarf að smella á slóð sem svikararnir gefa upp til að greiða gjaldið með kreditkorti. Þá kemur upp úr dúrnum að um er að ræða evrur en ekki krónur og þá er upphæðin orðin tæplega 200 þúsund krónur. Förum varlega þegar við fáum grunsamlega pósta. Ef grannt er skoðað má iðulega sjá á netfanginu sem viðkomandi póstur er sendur úr að hann er falsaður sem bendir ekki til neins annars en um sé að ræða svik. Hundsum svona pósta!