13 Nóvember 2006 12:00
Þeir voru heldur seinheppnir tveir þjófanna sem lögreglan í Reykjavík gómaði um helgina. Annar stal bíl og ók honum á bílastæði í úthverfi. Þar lagðist hann til svefns og var steinsofandi þegar lögreglan kom á vettvang. Maðurinn gat ekki sýnt fram á eignarhald sitt á bílnum né ýmsa muni sem í honum var að finna. Enda kom á daginn að maðurinn hafði stolið bílnum.
Hinn þjófurinn reyndi að brjóta sér leið inn í hús í miðbænum. Eitthvað gekk það erfiðlega og þegar hann var kominn hálfa leið inn sótti að honum mikil þreyta. Er skemmst frá því að segja að maðurinn féll í fastasvefn. Þessir seinheppnu þjófar eru báðir á þrítugsaldri. Annar hefur margoft komið við sögu hjá lögreglunni en hinn örsjaldan.