16 Desember 2016 15:10

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt skýrslu með niðurstöðum úr árlegri könnun á viðhorfum til lögreglu, ótta við afbrot og reynslu af þeim. Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að mikill meirihluti höfuðborgarbúa telja lögregluna skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum auk þess að bera traust til hennar. Tæplega helmingur íbúa á höfuðborgarsvæðinu segjast sjá lögreglumann eða lögreglubíl mánaðarlega eða oftar í sínu hverfi. Það vakti athygli að þeir sem sjá lögreglu sjaldnar í sínu hverfi hafa marktækt neikvæðari viðhorf í garð lögreglu en þeir sem sjá lögreglu oftar, þ.e. þeir eru líklegri til að segja lögreglu óaðgengilega og að lögregla skili slæmu starfi við að stemma stigu við afbrotum.

Gagnaöflunin fór fram dagana 24. maí til 9. júní 2016 og var framkvæmd af Gallup fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Tekið var 2.000 manna tilviljunarúrtak fólks á aldrinum 18 ára og eldra af höfuðborgarsvæðinu úr netpanel Gallup. Fjöldi svarenda var 1.372 og svarhlutfallið því 68,6 prósent. Gögnin voru vigtuð fyrir kyni, aldri og menntun svarenda.